Fermingar og ættarmót

Jæja ekki voru þeir endanlega taldir skíðadagarnir og hef ég fengið að heyra þessa ræðu aftur, síðast á laugardag.

 

Fermingarvertíðin var stutt ein ferming í ár þá er síðasta fermingarbarnið í fjölskyldunni fermt áður en ég fermi á næsta ári. Rannskóknarleiðangrar í fermingarveislur þar sem ég smakka samviskusamlega allar veitingar til að undirbúa þennan stórviðburð í lífi dótturinnar undanfarin ár, hafa skilað þeim árangri að ég er engu nær um hvað best væri að bjóða upp á.

 

Hef fengið fullt af góðum ráðum við fermingarundirbúning. Kaupa smátt og smátt það sem vantar eða eins og einn vinur minn, plana að leggja fyrir (hann reyndar gerði það ekki þrátt fyrir að hafa planað það) en svo tókst honum með yngsta barnið að sannfæra það um að sleppa fermingu. Allt góðar hugmyndir sem fara í bankann.

 

Fékk hringingu í dag en ein áminning um að ég eigi ekki alltaf að svara í símann. Verið að tékka á hvort við ætlum ekki á ættarmót í sumar.  Þetta er svona eins og að gefa blóð, langar engan til þess,  frekar óþægilegt og maður half vankaður á eftir en fólk lætur sig hafa það að skyldurækni og náungakærleik,

Ég sagði “já auðvitað mætum við” þó Bóndinn sem á þessa fjölskyldu sé ekkert fyrir ættarmót. Kannsi var það einmitt þess vegna gaman að “fórna sér” fyrir hann eiga inni hjá honum og vita að hann langar enn minna en mig.  Huggun harmi gegn að fá að gera bóndanum greiða sem hann vil ekki.


Skíðadagar vetrarins að verða taldir blessuð sé minning þeirra

Maðurinn minn er góður karl en á það til að vera dramatískur í yfirlýsingum.  Nú verður að nota hvert tækifæri til að fara á skíði með krakkakvekendin því skíðaveturinn er alltaf alveg að verða búinn og gæti verið síðasta tækifærið. Hversu oft er hægt að nota svona síðasta tækifærið með svona dramatískum hætti?  Hversu oft er hægt að kveðja einhvern eða eitthvað af því það er alveg að fara og það verður að nota hverja samverustund.  Samstarfskona mín ein lenti í þessu að gamall vinur lá á banalegunni og alltaf var verið að hringja í hana og hann var alveg að fara.  Hún fór landið þvert og endilangt aftur og aftur til að kveðja góðann mann í misjöfnum veðrum. En svo kemur að því að maður hugsar var ég ekki búin að kveðja? Erum við ekki búin að eiga góða kveðjustund. Allavega er það mín tilfinning gagnvart snjónum. ÉG er reyndar ekkert fyrir snjó og fer sjálf ekki á skíði en karlinn og krakkarnir eru alveg að verða búin að nota öll síðustu tækifærin til að fara á skíði sem ég nenni að standa í þetta er bara bull er ekki hægt að gera eitthvað annað núna. Svo kemur snjórinn aftur síðar vonandi mikið síðar svo ég nái að sakna hans.


Helgin framundan

Jæja helgin að koma nú er að taka til svo er ég að fara í leikhús í kvöld. Þegar ég kem heim þarf ég að baka nokkrar kökur í eftirrétt á morgun. Á morgun er  ég á námskeiði  til kl 16 þá drífa sig heim og afmæli hjá litla púkanum kl 18.  elda mat handa gestunum í millitíðinni og svo aftur námskeið á sunnudagsmorgun aftur til 16.

Gott að hafa svona helgar til að slaka á eftir vikuna.


Dauflegt líf lasin heima og áramótaheitið fundið

Merkilegt hvað það er dauflegt að vera lasinn heima. Fékk eitthvað tak í bakið ofarlega þursabit eða eitthvað og verk út í hægri handlegg og upp í haus.  Handlama með hausverk myndi ég ekkert annað geta en garga á fólk í vinnunni. Svo ég fór ekki.  Ég hugsaði samt að ég gæti kannski gert eitthvað heima... en gerði ekki enda helaum. Asnalegt hvað ég fæ mikið samviskubit yfir því að vinna ekki þegar ég er lasin. Er orðin skárri núna hef tekið verkjatöflur og ætla að vera í vinnunni á morgun.  Ég er frekar vinnusöm mæti snemma og er með þeim síðustu út, segi aldrei nei við verkefni og maðurinn minn er líka voða duglegur, hann hefur þetta kjörorð að hann ætli að hvíla sig þegar hann deyr. Sem betur fer hvílir hann sig nú samt öðru hverju.  En stundum vildi ég bara vera löt eða lasin með góðri samvisku gera ekkert og vera ánægð með það.  Held ég hafi það fyrir áramótaheit á næsta ári.


Líkamsræktarmógúll

Ég er að reyna við nýjan titil líkamsræktarmógúll (aðallega af því að mógúll er skemmtilegt orð).  Nú er ég orðin dugleg fer alla virka morgna og tvö kvöld í viku í þjálfun og búin að gera það í 2 mánuði og er EKKERT LÉTTARI.  Það stefnir því allt í það að ég verði einn af landsins feitustu líkamsræktarmógúlum.  Ég er kjáni mér þykir þetta dálítið fyndið, lífið er bara dálítið fyndið svona á heildina litið og þetta er eitt að því.  Bóndinn fór og keypti jólagjöf handa mér í gær, ég var spennt að prófa hana strax og viti menn... hann var bilaður, forláta Kitchen Aid blenderinn fór því aftur í búðina í dag eftir skemmtiferð heim til mín. Sá verður spældur að fá ekki að búa hjá mér. 

Í gær tók ég mig til og pakkaði inn jólagjöfunum sem við keyptum um helgina og síðustu helgi, ótrúlegt hvað það róar mig að nóvember er rúmlega hálfnaður og ég er langt komin með jólagjafastandið. Nýji blenderinn kemur í hús á eftir búið að skipta. Nú er bara að ákveða hvað skal blenda, líkamsræktarmógúlar blenda örugglega heilsudrykki og náttúrukrem. Best að fá sér sjeik.


Gúrkutíðin hafin

Jæja ætla að gera enn eina tilraun til að blogga. Ég féll fyrir heitinu á útliti síðunnar "tómatar í rökkri" hverjum dettur svona í hug?  Svo nú er ekki eftir neinu að bíða, ég get farið að segja frá æsispennandi lífi mínu. Verst er samt að þegar mikið er að gerast hef ég ekki tíma til að blogga. Svo ég á von á að hér verði gúrkutíðarfréttir af lífi mínu birtar með óreglulegu millibili.´

Ég ætla ekki að lofa neinu um hvað mun birtast hér. Ég hef áhuga á leiklist, bókum (er núna í ævintýraham en les fjölbreyttar bókmenntir), fjölskyldunni minni, vinum mínum, lífinu og vinnunni í síbreytilegri röð.

Bókin sem ég er að lesa núna er Lúmski hnífurinn. Gyllti áttavitinn kom mér á bragðið og nú er ég spennt í þessari.

Leikritin sem ég sá síðast voru Óvitar á Akureyri skemmtilegt fjölskylduleikrit og ekkert síðara núna en þegar ég sá það í Þjóðleikhúsinu hér um árið og Ræðismannsskrifstofan frábært leikrit ógeðslega fyndið, skemmtilegt hvað það er hægt að tjá mikið án skiljanlegra orða.

Svo fékk ég að leikstýra krúttlegu stykki grunnskólanema Handsápu sem sýnt var í Borgarleikhúsinu í vikunni í Skrekk keppninni.  Frábært fjör að fá að prófa að leikstýra og börnin mín stóðu sig eins og hetjur.

 Er á leiðinni á Ást í þessari viku og Hamskiptin í næstu.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband